LAGALEIKURINN VÍÐFRÆGI

LAGALEIKURINN VÍÐFRÆGI

Starfsfólk Árnasona mætir ávallt mun hressara til leiks á föstudögum frekar en aðra daga og mikil eftirvænting virðist svífa yfir vötnum. Það er ekki bara vegna þess að það er föstudagur og stutt í helgi, eða að verkefni stofunnar séu endilega skemmtilegri þá en aðra daga – nei, það er alltaf nóg af skemmtilegum verkefnum alla daga. Ástæðan er sú að á föstudagsmorgni uppúr kl. 10 er lagaleikur starfsfólks leikinn í beinni. Lagaleikurinn alræmdi er nánast alltumlykjandi alla daga vikunnar og menn og konur ræða sín á milli strauma og stefnur í tónlist og því þema sem liggur á borði hverrar viku. Leikurinn nær svo hámarki á föstudögum.

En um hvað snýst þessi blessaði leikur? Hér verður reynt að útskýra meginreglur:

– Hver og einn starfsmaður setur hugmynd um þema í pott.

– Sigurvegari síðustu viku (Kóngurinn) dregur þema úr pottinum – segjum t.a.m. að það sé BALLÖÐUR.

– Þeir starfsmenn sem hvorki sigruðu né töpuðu skila inn sínum hugmyndum um BALLÖÐUR.

– Tapari síðustu viku tekur að sér að safna lögum og skilar inn til Kóngsins á fimmtudegi.

– Sigurvegarinn fær þá lögin send og raðar eftir sínum smekk. Hann veit vitaskuld ekki hver á innsendingarnar.

– Á föstudegi kemur svo í ljós þegar Kóngurinn spilar listann hver er nýr sigurvegari og hver er tapari vikunnar. Lögin eru spilað í þeirri röð að næstneðsta lagið er spilað fyrst, svo koll af kolli þar til að sigurlaginu er komið, þá eru tvö lög eftir í pottinum; sigurlagið og taplagið. Þá er sigurlagið spilað og eftir situr taparinn í sárum og fær smá brot af taplaginu spilað í lokin.

Þetta hljómar kannski flókið en er sáraeinfalt. Og fjári skemmtilegt. Til að auka á lagalistann fær taparinn frá vikunni á undan að koma með tillögu sína þó hún hafi alls ekki neitt vægi. Sömuleiðis velur sigurvegarinn frá vikunni á undan sitt konunglega viðmið. Loks er æskilegt að Kóngurinn muni eftir keppnina sjá um tónlistarval fram eftir degi, lagalista undir áhrifum frá þema hverrar viku. Þemun uppá síðkastið hafa verið jafn misjöfn og þau hafa verið mörg. Matur, Madonna, Lög úr Óskarsverðlaunamyndum, Á vegum úti, Lög með mér (Danni í Maus bryddaði uppá þessu skemmtilega en sjálfhverfa þema), Liturinn blár, Aldamótin, Pönk og Ástarsorg.

Til gamans fá lagalistarnir okkar að birtast á sérsniðinni Youtube-rás; https://www.youtube.com/channel/UCWCQvotmCFKB5UkXKV6ejcA og við hvetjum alla til að fylgjast með.