ÍSLENSKA SVEITIN OG SS

ÍSLENSKA SVEITIN OG SS

Landsmenn hafa notið ýmissa kræsinga frá Sláturfélagi Suðurlands áratugum saman en SS var stofnað árið 1907. SS er án alls vafa eitt af sterkustu vörumerkjum á íslenskum matvælamarkaði og fáir sem ekki hafa smakkað á einhverri afurð frá íslensku bændunum sem saman eiga SS. Nú á dögum gerum við neytendur æ meiri kröfur til matvælaframleiðenda sem og annarra og viljum vitaskuld þekkja uppruna þess sem við neytum. Akkúrat þess vegna þótti okkur tilhlýðilegt að varpa ljósi á fólkið á bakvið SS.

Við fórum því í þrjár skemmtilegar heimsóknir til bænda á Suðurlandi og til þess að auka við ástríðuna á bakvið matseldina fengum við úrvalskokkinn Ragnar Frey Ingvarsson, „lækninn í eldhúsinu” með okkur. Við heimsóttum þau Gunnar og Lóu á Litla Hofi í Öræfum, Berg Sigfússon og hans fjölskyldu að Austurhlíð í Skaftártungu og loks systkinin í Efstadal skammt frá Laugarvatni. Það var ákaflega gaman skoða þessi býli sem standa að baki SS og fá þar smjörþef af upprunanum, gæðunum og fagmennskunni sem skilar sér svo glöggt inn á eldhúsborð landsmanna í hvívetna.

Við hjá Árnasonum önnuðumst verkefnið og fengum með okkur gott fólk svo að þetta liti nú allt saman vel út. Framleiðslufyrirtækið Kraumar annaðist upptökur þar sem Bjarni Fel sá um tökurnar undir styrkri leikstjórn Kristjáns Kristjánssonar.