MÖRKUN LANDSNETS

Fyrr á þessu ári kynnti Landsnet nýja heildræna ásýnd sína með breyttum áherslum, merki og litum. Við hjá Árnasonum erum stolt að okkar aðkomu að þessari endurmörkun og þykir útkoman ákaflega vel heppnuð. Hönnuðir okkar lögðust í þá grunnvinnu að kynnast fyrirtækinu, starfsemi og menningunni til þess að nálgast verkefnið enn betur. En hvað er Landsnet, hvert er hlutverk Landsnets? Landsnet flytur rafmagn. Landsnet tryggir það að samfélagið allt búi að öruggu rafmagni, jafnt einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir. Í öllum samskiptum Landsnets út á við skiptir hönnun miklu máli og myndræn útfærsla á öllum skilaboðum gefur rétta mynd af ásýnd fyrirtækisins.

Logo-Landsnet

Eldingin í hinu nýja merki var því augljós, enda alþjóðleg tenging við rafmagn. Því lá beinast við að hún yrði fyrir valinu sem annar af útgangspunktunum í hönnun á hinu nýja merki. Hinn útgangspunkturinn er dreifing og formið táknar einnig flutning á rafmagni frá uppruna til notanda. Elding er þó mjög almennt tákn og var því eindreginn vilji til þess að eiga aðeins við hana, gera hana meira abstrakt. Við skiptum henni í tvennt og drógum línurnar í sundur. Auk þess dregur þetta enn betur fram útgangspunktinn varðandi dreifinguna. Aðallitirnir eru rauður og blár. Þessir tveir litir tákna andstæða póla og byggja þannig undir rafmagnstenginguna. Rauður stendur fyrir kraft, metnað og orku á meðan blái liturinn stendur fyrir traust, ábyrgð, einlægni og fagmennsku.

4142-Landsnet-Umhverfisverdlaun-1200x900px

Þessari nýju ásýnd var ætlað að endurspegla breyttar áherslur fyrirtækisins og vonum við að hafi tekist vel til. Við erum á því að þessar breytingar hafi hjálpað til þess að skýra hið mikilvæga hlutverk Landsnets. Um leið og við sendum Landsneti síðbúnar hamingjuóskir með nýja ásýnd viljum við einnig óska þeim til lukku með Umhverfisverðlaun atvinnulífsins sem fyrirtækið hlaut á dögunum fyrir framtak ársins á sviði loftslagsmála.

ALVEG UMBÚÐALAUST!

Við hér á skrifstofu Árnasona glímum við alls konar verkefni, jafn misjöfn og þau eru mörg. Með þeim skemmtilegri eru verkefni sem snúa að umbúðum. Umbúðir spila yfirleitt stórt hlutverk og geta vandaðar umbúðir og framsetning skipt höfuðmáli í ímynd vörunnar. Umbúðahönnun lendir ósjaldan á okkar borðum og taka okkar hönnuðir ávallt fagnandi við þeim krefjandi verkefnum og skila þeim með sóma. Við erum voða stolt af okkar fólki og þeirri hönnun sem þau skila af sér í hillur verslana og víðar og sýnum hér nokkur dæmi úr vörulínu Nóa Síríus … þó það sé ekki endilega nammidagur akkúrat núna.

NÓA KÚLUR

Kúlurnar frá Nóa fengu andlitslyftingu núna síðsumars og hafa slegið í gegn. Rjómakúlur og Lakkrískúlur komu þá í nýjum búningi en þess fyrir utan fékk þessi gómsæta vörulína glænýjan félaga, Piparkúlur! Úff, eins og hinar tegundirnar hafa ekki verið nægilega girnilegar þá þurftu þau hjá Nóa endilega að koma með súkkulaðihjúpaðar lakkrískúlur með pipardufti. Piparkúlurnar hafa næstum því verið ófáanlegar á mörgum stöðum og hafa margir áhangendur nefnt að þetta sé með besta piparsælgætinu sem er á markaðnum.

RISA OPAL

Opal-i-standpoka-POS-bio-1024x769

Risa Opal er mætt aftur og nú í nýjum umbúðum. Opal pakkinn hefur verið vinamargur í gegnum tíðina og er hann mjög gott dæmi um algjörlega tímalausa og sérlega vel heppnaða hönnun. Atli Már Árnason (1918-2006) hannaði umbúðirnar að rauða Opal pakkanum árið 1945 en hann átti einnig heiðurinn að gulu umbúðunum utan um dósina fyrir grænar baunir frá Niðursuðuverksmiðjunni Ora, sem hann hannaði 1953. Rauði Opal pakkinn og gula dósin með grænu baununum frá Ora eru verk, sem notuð hafa verið nánast óbreytt fram á þennan dag og löngu orðin fastur liður í íslenskum veruleika. Núna mætir aftur á markaðinn Risa Opal og það í pokum fullum af frískandi anda. Hvor pokinn er betri, sá rauði eða græni? Við segjum að þeir séu báðir betri.

MEGA KROPP

Noi-3755-Megakropp-web-636x450

Það ríkti mikil eftirvænting í byrjun sumars þegar Nói Síríus tilkynnti að sumarkroppið 2017 væri væntanlegt og það yrði stærra en nokkru sinni! MEGA KROPP kom með látum á markaðinn í MEGA stórum glansandi poka, með MEGA stórar og brakandi karamellu kroppkúlur sem eru algjörlega ómótstæðilegar og voru þær mögulega eitt vinsælasta sælgæti þessa sumars. Hefur þú ekki örugglega smakkað?

– – –

Þetta eru eingöngu nokkur dæmi um skemmtileg – og bragðgóð – verkefni sem við leysum hér á hverjum degi.

ÍSLENSKA SVEITIN OG SS

Landsmenn hafa notið ýmissa kræsinga frá Sláturfélagi Suðurlands áratugum saman en SS var stofnað árið 1907. SS er án alls vafa eitt af sterkustu vörumerkjum á íslenskum matvælamarkaði og fáir sem ekki hafa smakkað á einhverri afurð frá íslensku bændunum sem saman eiga SS. Nú á dögum gerum við neytendur æ meiri kröfur til matvælaframleiðenda sem og annarra og viljum vitaskuld þekkja uppruna þess sem við neytum. Akkúrat þess vegna þótti okkur tilhlýðilegt að varpa ljósi á fólkið á bakvið SS.

Við fórum því í þrjár skemmtilegar heimsóknir til bænda á Suðurlandi og til þess að auka við ástríðuna á bakvið matseldina fengum við úrvalskokkinn Ragnar Frey Ingvarsson, „lækninn í eldhúsinu” með okkur. Við heimsóttum þau Gunnar og Lóu á Litla Hofi í Öræfum, Berg Sigfússon og hans fjölskyldu að Austurhlíð í Skaftártungu og loks systkinin í Efstadal skammt frá Laugarvatni. Það var ákaflega gaman skoða þessi býli sem standa að baki SS og fá þar smjörþef af upprunanum, gæðunum og fagmennskunni sem skilar sér svo glöggt inn á eldhúsborð landsmanna í hvívetna.

Við hjá Árnasonum önnuðumst verkefnið og fengum með okkur gott fólk svo að þetta liti nú allt saman vel út. Framleiðslufyrirtækið Kraumar annaðist upptökur þar sem Bjarni Fel sá um tökurnar undir styrkri leikstjórn Kristjáns Kristjánssonar.

LAGALEIKURINN VÍÐFRÆGI

Starfsfólk Árnasona mætir ávallt mun hressara til leiks á föstudögum frekar en aðra daga og mikil eftirvænting virðist svífa yfir vötnum. Það er ekki bara vegna þess að það er föstudagur og stutt í helgi, eða að verkefni stofunnar séu endilega skemmtilegri þá en aðra daga – nei, það er alltaf nóg af skemmtilegum verkefnum alla daga. Ástæðan er sú að á föstudagsmorgni uppúr kl. 10 er lagaleikur starfsfólks leikinn í beinni. Lagaleikurinn alræmdi er nánast alltumlykjandi alla daga vikunnar og menn og konur ræða sín á milli strauma og stefnur í tónlist og því þema sem liggur á borði hverrar viku. Leikurinn nær svo hámarki á föstudögum.

En um hvað snýst þessi blessaði leikur? Hér verður reynt að útskýra meginreglur:

– Hver og einn starfsmaður setur hugmynd um þema í pott.

– Sigurvegari síðustu viku (Kóngurinn) dregur þema úr pottinum – segjum t.a.m. að það sé BALLÖÐUR.

– Þeir starfsmenn sem hvorki sigruðu né töpuðu skila inn sínum hugmyndum um BALLÖÐUR.

– Tapari síðustu viku tekur að sér að safna lögum og skilar inn til Kóngsins á fimmtudegi.

– Sigurvegarinn fær þá lögin send og raðar eftir sínum smekk. Hann veit vitaskuld ekki hver á innsendingarnar.

– Á föstudegi kemur svo í ljós þegar Kóngurinn spilar listann hver er nýr sigurvegari og hver er tapari vikunnar. Lögin eru spilað í þeirri röð að næstneðsta lagið er spilað fyrst, svo koll af kolli þar til að sigurlaginu er komið, þá eru tvö lög eftir í pottinum; sigurlagið og taplagið. Þá er sigurlagið spilað og eftir situr taparinn í sárum og fær smá brot af taplaginu spilað í lokin.

Þetta hljómar kannski flókið en er sáraeinfalt. Og fjári skemmtilegt. Til að auka á lagalistann fær taparinn frá vikunni á undan að koma með tillögu sína þó hún hafi alls ekki neitt vægi. Sömuleiðis velur sigurvegarinn frá vikunni á undan sitt konunglega viðmið. Loks er æskilegt að Kóngurinn muni eftir keppnina sjá um tónlistarval fram eftir degi, lagalista undir áhrifum frá þema hverrar viku. Þemun uppá síðkastið hafa verið jafn misjöfn og þau hafa verið mörg. Matur, Madonna, Lög úr Óskarsverðlaunamyndum, Á vegum úti, Lög með mér (Danni í Maus bryddaði uppá þessu skemmtilega en sjálfhverfa þema), Liturinn blár, Aldamótin, Pönk og Ástarsorg.

Til gamans fá lagalistarnir okkar að birtast á sérsniðinni Youtube-rás; https://www.youtube.com/channel/UCWCQvotmCFKB5UkXKV6ejcA og við hvetjum alla til að fylgjast með.

ALLIR SPENNTIR?

Við unnum á dögunum með vinum okkar á bílaleigunni Avis hressar auglýsingar til þess að vekja betur athygli á þjónustu þeirra sem snýr að langtímaleigu. Við þóttumst nú kannast við viðskiptamódel bílaleigunnar og þekkjum af eigin raun það t.a.m. að fljúga innanlands og taka svo bílaleigubíl. Það getur verið afar ljúft að stíga inn í glænýjan bílaleigubíl – sem er kannski aðeins nýrri og betri en manns eigin – og keyra um landið við öruggar aðstæður og nýjasta lúxus. Versta er að þurfa að skila bílnum og stíga inn í gamla jálkinn sinn eftir lúxusinn.

Hvernig væri þó að skila honum ekki? Nú erum við ekki að mæla með því að skila ekki bílaleigubílnum – það er nefnilega önnur skynsamlegri leið! Langtímaleiga Avis er nefnilega um margt skynsamlegur kostur fyrir þá sem vilja aka um á nýjum eða nýlegum bíl og vera laus við allt viðhald og vesen. Með því að taka bíl á langtímaleigu hjá Avis greiðir þú bara eitt mánaðargjald og lætur starfsfólki Avis um allt hitt, tryggingar, dekkjaskipti, skoðun og annað hefðbundið viðhald. Þetta hljómar vissulega eins og draumur en þetta er það sem langtímaleigan snýst um. Alltaf á öruggum og nýlegum bíl og svo er engin endursöluáhætta. Einfalt og hagkvæmt.

Auglýsingarnar gerðum við á vordögum með fullt af skemmtilegu fólki og útkoman var bara nokkuð smellin. Vinir okkar og nágrannar á Tjarnargötunni sá um umgjörðina á tökustað, leikararnir stóðu sig ákaflega vel og bílarnir voru meira að segja líka afar sannfærandi. Að öðrum ólöstuðum má segja að Ómar Freyr Rafnsson eigi þarna stjörnuleik í hlutverki pabbans og málarans – sem einmitt mætti íhuga langtímaleigu Avis.