ALVEG UMBÚÐALAUST!

ALVEG UMBÚÐALAUST!

Við hér á skrifstofu Árnasona glímum við alls konar verkefni, jafn misjöfn og þau eru mörg. Með þeim skemmtilegri eru verkefni sem snúa að umbúðum. Umbúðir spila yfirleitt stórt hlutverk og geta vandaðar umbúðir og framsetning skipt höfuðmáli í ímynd vörunnar. Umbúðahönnun lendir ósjaldan á okkar borðum og taka okkar hönnuðir ávallt fagnandi við þeim krefjandi verkefnum og skila þeim með sóma. Við erum voða stolt af okkar fólki og þeirri hönnun sem þau skila af sér í hillur verslana og víðar og sýnum hér nokkur dæmi úr vörulínu Nóa Síríus … þó það sé ekki endilega nammidagur akkúrat núna.

NÓA KÚLUR

Kúlurnar frá Nóa fengu andlitslyftingu núna síðsumars og hafa slegið í gegn. Rjómakúlur og Lakkrískúlur komu þá í nýjum búningi en þess fyrir utan fékk þessi gómsæta vörulína glænýjan félaga, Piparkúlur! Úff, eins og hinar tegundirnar hafa ekki verið nægilega girnilegar þá þurftu þau hjá Nóa endilega að koma með súkkulaðihjúpaðar lakkrískúlur með pipardufti. Piparkúlurnar hafa næstum því verið ófáanlegar á mörgum stöðum og hafa margir áhangendur nefnt að þetta sé með besta piparsælgætinu sem er á markaðnum.

RISA OPAL

Opal-i-standpoka-POS-bio-1024x769

Risa Opal er mætt aftur og nú í nýjum umbúðum. Opal pakkinn hefur verið vinamargur í gegnum tíðina og er hann mjög gott dæmi um algjörlega tímalausa og sérlega vel heppnaða hönnun. Atli Már Árnason (1918-2006) hannaði umbúðirnar að rauða Opal pakkanum árið 1945 en hann átti einnig heiðurinn að gulu umbúðunum utan um dósina fyrir grænar baunir frá Niðursuðuverksmiðjunni Ora, sem hann hannaði 1953. Rauði Opal pakkinn og gula dósin með grænu baununum frá Ora eru verk, sem notuð hafa verið nánast óbreytt fram á þennan dag og löngu orðin fastur liður í íslenskum veruleika. Núna mætir aftur á markaðinn Risa Opal og það í pokum fullum af frískandi anda. Hvor pokinn er betri, sá rauði eða græni? Við segjum að þeir séu báðir betri.

MEGA KROPP

Noi-3755-Megakropp-web-636x450

Það ríkti mikil eftirvænting í byrjun sumars þegar Nói Síríus tilkynnti að sumarkroppið 2017 væri væntanlegt og það yrði stærra en nokkru sinni! MEGA KROPP kom með látum á markaðinn í MEGA stórum glansandi poka, með MEGA stórar og brakandi karamellu kroppkúlur sem eru algjörlega ómótstæðilegar og voru þær mögulega eitt vinsælasta sælgæti þessa sumars. Hefur þú ekki örugglega smakkað?

– – –

Þetta eru eingöngu nokkur dæmi um skemmtileg – og bragðgóð – verkefni sem við leysum hér á hverjum degi.