Hér býr sköpun

ÍSLENSKA SVEITIN OG SS

Landsmenn hafa notið ýmissa kræsinga frá Sláturfélagi Suðurlands áratugum saman en SS var stofnað árið 1907. SS er án alls vafa eitt af sterkustu vörumerkjum á íslenskum matvælamarkaði og fáir sem ekki hafa smakkað á einhverri afurð frá íslensku bændunum sem saman eiga SS. Nú á dögum gerum við neytendur æ meiri kröfur til matvælaframleiðenda sem og annarra og viljum vitaskuld þekkja uppruna þess sem við neytum. Akkúrat þess vegna þótti okkur tilhlýðilegt að varpa ljósi á fólkið á bakvið SS.

Við fórum því í þrjár skemmtilegar heimsóknir til bænda á Suðurlandi og til þess að auka við ástríðuna á bakvið matseldina fengum við úrvalskokkinn Ragnar Frey Ingvarsson, „lækninn í eldhúsinu” með okkur. Við heimsóttum þau Gunnar og Lóu á Litla Hofi í Öræfum, Berg Sigfússon og hans fjölskyldu að Austurhlíð í Skaftártungu og loks systkinin í Efstadal skammt frá Laugarvatni. Það var ákaflega gaman skoða þessi býli sem standa að baki SS og fá þar smjörþef af upprunanum, gæðunum og fagmennskunni sem skilar sér svo glöggt inn á eldhúsborð landsmanna í hvívetna.

Við hjá Árnasonum önnuðumst verkefnið og fengum með okkur gott fólk svo að þetta liti nú allt saman vel út. Framleiðslufyrirtækið Kraumar annaðist upptökur þar sem Bjarni Fel sá um tökurnar undir styrkri leikstjórn Kristjáns Kristjánssonar.

LAGALEIKURINN VÍÐFRÆGI

Starfsfólk Árnasona mætir ávallt mun hressara til leiks á föstudögum frekar en aðra daga og mikil eftirvænting virðist svífa yfir vötnum. Það er ekki bara vegna þess að það er föstudagur og stutt í helgi, eða að verkefni stofunnar séu endilega skemmtilegri þá en aðra daga – nei, það er alltaf nóg af skemmtilegum verkefnum alla daga. Ástæðan er sú að á föstudagsmorgni uppúr kl. 10 er lagaleikur starfsfólks leikinn í beinni. Lagaleikurinn alræmdi er nánast alltumlykjandi alla daga vikunnar og menn og konur ræða sín á milli strauma og stefnur í tónlist og því þema sem liggur á borði hverrar viku. Leikurinn nær svo hámarki á föstudögum.

En um hvað snýst þessi blessaði leikur? Hér verður reynt að útskýra meginreglur:

– Hver og einn starfsmaður setur hugmynd um þema í pott.

– Sigurvegari síðustu viku (Kóngurinn) dregur þema úr pottinum – segjum t.a.m. að það sé BALLÖÐUR.

– Þeir starfsmenn sem hvorki sigruðu né töpuðu skila inn sínum hugmyndum um BALLÖÐUR.

– Tapari síðustu viku tekur að sér að safna lögum og skilar inn til Kóngsins á fimmtudegi.

– Sigurvegarinn fær þá lögin send og raðar eftir sínum smekk. Hann veit vitaskuld ekki hver á innsendingarnar.

– Á föstudegi kemur svo í ljós þegar Kóngurinn spilar listann hver er nýr sigurvegari og hver er tapari vikunnar. Lögin eru spilað í þeirri röð að næstneðsta lagið er spilað fyrst, svo koll af kolli þar til að sigurlaginu er komið, þá eru tvö lög eftir í pottinum; sigurlagið og taplagið. Þá er sigurlagið spilað og eftir situr taparinn í sárum og fær smá brot af taplaginu spilað í lokin.

Þetta hljómar kannski flókið en er sáraeinfalt. Og fjári skemmtilegt. Til að auka á lagalistann fær taparinn frá vikunni á undan að koma með tillögu sína þó hún hafi alls ekki neitt vægi. Sömuleiðis velur sigurvegarinn frá vikunni á undan sitt konunglega viðmið. Loks er æskilegt að Kóngurinn muni eftir keppnina sjá um tónlistarval fram eftir degi, lagalista undir áhrifum frá þema hverrar viku. Þemun uppá síðkastið hafa verið jafn misjöfn og þau hafa verið mörg. Matur, Madonna, Lög úr Óskarsverðlaunamyndum, Á vegum úti, Lög með mér (Danni í Maus bryddaði uppá þessu skemmtilega en sjálfhverfa þema), Liturinn blár, Aldamótin, Pönk og Ástarsorg.

Til gamans fá lagalistarnir okkar að birtast á sérsniðinni Youtube-rás; https://www.youtube.com/channel/UCWCQvotmCFKB5UkXKV6ejcA og við hvetjum alla til að fylgjast með.

ALLIR SPENNTIR?

Við unnum á dögunum með vinum okkar á bílaleigunni Avis hressar auglýsingar til þess að vekja betur athygli á þjónustu þeirra sem snýr að langtímaleigu. Við þóttumst nú kannast við viðskiptamódel bílaleigunnar og þekkjum af eigin raun það t.a.m. að fljúga innanlands og taka svo bílaleigubíl. Það getur verið afar ljúft að stíga inn í glænýjan bílaleigubíl – sem er kannski aðeins nýrri og betri en manns eigin – og keyra um landið við öruggar aðstæður og nýjasta lúxus. Versta er að þurfa að skila bílnum og stíga inn í gamla jálkinn sinn eftir lúxusinn.

Hvernig væri þó að skila honum ekki? Nú erum við ekki að mæla með því að skila ekki bílaleigubílnum – það er nefnilega önnur skynsamlegri leið! Langtímaleiga Avis er nefnilega um margt skynsamlegur kostur fyrir þá sem vilja aka um á nýjum eða nýlegum bíl og vera laus við allt viðhald og vesen. Með því að taka bíl á langtímaleigu hjá Avis greiðir þú bara eitt mánaðargjald og lætur starfsfólki Avis um allt hitt, tryggingar, dekkjaskipti, skoðun og annað hefðbundið viðhald. Þetta hljómar vissulega eins og draumur en þetta er það sem langtímaleigan snýst um. Alltaf á öruggum og nýlegum bíl og svo er engin endursöluáhætta. Einfalt og hagkvæmt.

Auglýsingarnar gerðum við á vordögum með fullt af skemmtilegu fólki og útkoman var bara nokkuð smellin. Vinir okkar og nágrannar á Tjarnargötunni sá um umgjörðina á tökustað, leikararnir stóðu sig ákaflega vel og bílarnir voru meira að segja líka afar sannfærandi. Að öðrum ólöstuðum má segja að Ómar Freyr Rafnsson eigi þarna stjörnuleik í hlutverki pabbans og málarans – sem einmitt mætti íhuga langtímaleigu Avis.